Tími og þjóðsagnaminni

 

Þá er komið að þriðju lesstundinni.   Hér velta þeir Baldur og Ingólfur því fyrir sér hvernig höfundur tengir söguna við þann samtíma sem hann fjallar um í sögunni.  Þegar þið hafið lokið við að horfa á myndbandið er tilvalið að fara yfir hugleiðingarnar sem koma á eftir.  Við hvetjum ykkur svo til að segja álit ykkar neðst á síðunni. Góða skemmtun!

Hugleiðingar

Sagan er að hluta til söguleg skáldsaga að því leytinu til að atburðirnir eru rammaðir inn í umhverfi og líf sem  átti sér stoð í raunveruleikanum.  Verstöðin í Dritvík var með fengsælustu verstöðvum landsins á þessum tíma.  

Til að gera söguna enn trúverðugri reynir höfundur einnig að fanga þá stemningu og þann anda sem ríkti meðal almennnings á þessum tíma, sbr. umræðuna um skoffínið og sagnarandann. Sagan af Axlar-Birni er einnig tenging við þennan tíma, en þeir atburðir áttu sér stað ekki löngu áður en sagan á að gerast.

Þá er vert að skoða hvernig Jón Trausti notar umræðuna um Axlar-Björn til að tengja við ákvörðun þeirra Sæmundar og Salómons í lokin. 

Eins og Baldur nefnir í myndbandinu þá má segja að höfundur dragi upp mynd af kvöldvöku, eins og þær kunna að hafa verið á 17. öld á Íslandi, þar sem Tóbías skemmtir þeim feðgum og Salómoni með kveðskap og frásögnum.      

Við hvetjum ykkur svo enn og aftur til að skrifa hvað ykkur finnst hér fyrir neðan og taka þátt í umræðunum.