Velkomin

KápaÍ þessum leshringi munum við rýna í söguna Sýður á keipum eftir Jón Trausta.

Leiðbeiningar

Leshringurinn Sýður á keipum er öllum opið og er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig hann/hún nálgast það. Fyrir þá sem það kjósa getið þið fylgt eftirfarandi leiðbeiningum.

  1. Byrjið á því að lesa bókina. Þið getið sótt hana á Lestu.is og þá valið um að lesa hana í flettibókaútgáfu í tölvunni ykkar eða hlaða henni niður.
  2. Að lestri loknum skuluð þið líta á ítarefnið sem fylgir námskeiðinu, en það skiptist í kort, umfjöllun um Dritvík, stutt æviágrip Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar), samtímagagnrýni á söguna, glæruskýringar og verkefnahefti.
  3. Þá er komið að því að horfa á fyrstu umræðustundina, þar sem Baldur Hafstað prófessor og Ingólfur Kristjánsson ritstjóri Lestu.is ræða um höfund og umhverfi sögunnar (sjá tengla efst til hægri). Hver umræða stendur í um það bil 10 mínútur. Þegar þið hafið lokið við að horfa á myndbandsumræðuna og hugleiða það sem þar er fjallað um, hvetjum við ykkur til að skrifa hvað ykkur finnst í ummæladálkinn neðst á síðunni.
  4. Svo gerið þið eins með hinar umræðustundirnar.

Leshringur/örnámskeið fyrir bekki og hópa

Leshringur/örnámskeið sem þessi henta vel í bekki og aðra hópa og viljum í því sambandi benda á ítarefnið sem fylgir námskeiðinu, en þar er að finna glærukynningu með sögunni og stutt verkefnahefti. Verkefnin þar miðast fyrst og fremst við efstu bekki grunnskólans og framhaldsskóla. Þá henta myndbandsumræðurnar vel á skjávarpa í stofu. Geta kennarar stuðst við almennu leiðbeiningarnar með örnámskeiðinu í yfirferð sinni.