Persónur og persónusköpun

 

Í þessari annarri lesstund halda þeir Baldur og Ingólfur áfram að ræða um söguna Sýður á keipum og taka einkum fyrir persónur og persónusköpun.  Þegar þið hafið lokið við að horfa á myndbandið er tilvalið að fara yfir hugleiðingarnar sem koma á eftir.  Við hvetjum ykkur svo til að segja álit ykkar neðst á síðunni. Góða skemmtun!

Hugleiðingar

Sagan gefur okkur ágæta innsýn í hvernig útgerð var háttað á þessum árum og við hvers konar skilyrði sjómenn urðu að búa.  Þá dregur höfundur upp ágæta mynd af því hvernig unnið var með afla við þessar frumstæðu aðstæður. Eru margar myndlíkingar höfundar þar nokkuð skemmtilegar, sbr. hjallana og fiskinn sem lagður er til þerris í hraunið (uppblásnar beinagrindur og hvítan gróður hraunsins).   

Persónurnar í sögunni eru eftirtektarverðar og ekki verður annað sagt en að þær falli vel að umhverfinu; þungbúnar og þöglar.  Þá verka þær nokkuð raunsannar og sjálfum sér samkvæmar, en á margan hátt má segja að áhugaverðustu persónurnar séu þeir Salómon og Tóbías.  Salómon mætti kannski líkja við Salómon Biblíunnar, þar sem hann reynir að stilla til friðar og koma á jafnvægi í deilum manna.
Þá er Tóbías nokkuð áhugaverð persóna, ekki síst fyrir þann starfa sem hann hefur með höndum.  Hann vinnur fyrir sér með skáldskap og kemur í  verstöðina í þeim eina tilgangi að selja ljóð; hann á í fórum sínum ,,vegabréf skáldskaparins“.  Að því leytinu til minnir hann á gömlu hirðskáldin sem ferðuðust á milli konunga með ljóð og þáðu gjafir að launum auk uppihalds. Í því ljósi mætti segja að þeir Sæmundur og Sigurður í Totu séu kóngar.

Í tengslum við persónurnar er ekki úr vegi að kíkja á samtímagagnrýnina sem hægt er að nálgast hér til hægri.

Svo er um að gera að láta í sér heyra hér fyrir neðan og skrifa hvað ykkur finnst.