Snorri Sturluson

Sturlungaöldin er tímabil höfðingja.  Allt virðist snúast um þá.  Einn þessara höfðingja sem setti mikinn svip á þessa tíma var Snorri Sturluson.  Ólíkt mörgum öðrum höfðingjum byrjar hann svo að segja með tvær hendur tómar, en með kænsku og hugviti nær hann á skömmum tíma að verða einn áhrifamesti og ríkasti maður landsins.  Það varir þó ekki lengi og innan tíðar eru flestir höfðingjar landsins búnir að snúa við honum baki, auk þess sem hann er eftirlýstur af Hákoni Noregskonungi fyrir drottinsvik. 

En Snorra verður ekki eingöngu minnst fyrir sitt veraldar vafstur, því að hann var auk alls annars, mestur rithöfundur þessa tíma og mikill fræðimaður.  Eftir hann liggja stórbrotin listaverk, eins og Heimskringla, sem segir sögu Noregskonunga frá upphafi og fram til ársins 1177, og Snorra-Edda, sem er kennslubók í skáldskaparfræðum og segir sögu goðanna.  Þá hafa menn haldið því fram að Snorri hafi t. d. skrifað Egilssögu, svo eitthvað sé nefnt.  

Snorri Sturluson fæddist árið 1179 í Hvammi í Dölum.  Faðir hans Sturla Þórðarson var kominn af Snorra goða, en móðir hans átti ættir að rekja til Egils Skallagrímssonar.  Sturla faðir Snorra réð yfir Snorrungagoðorði í Dölum, en umfram það virðist hann ekki hafa talist til gildra höfðingja.  Af sögum að dæma virðist hann hafa verið ákafamaður og sótt rétt sinn fast í öllum málum og lenti því gjarnan í útistöðum við menn, oft af litlum efnum.  Eitt sinn lenti hann í erfðamálum með tengdaföður sínum gegn Páli presti Sölvasyni í Reykholti. Á sáttafundi sem haldinn var í málinu réðst kona Páls að honum með hníf og ætlaði að stinga hann í augað og mælti um leið:  ,,Hví skal ég eigi gera þig þeim líkastan, er þú vilt líkastur vera, en það er Óðinn.”  Lagið kom í kinnina og varð svöðusár mikið.  Páll prestur seldi Sturlu sjálfdæmi í málinu og gerði Sturla sér 200 hundraða í sárabætur.  Þótti þessi krafa Sturlu fara út yfir öll velsæmismörk og var því leitað til Jóns Loftssonar til að dæma í málinu, en hann var einn mestur höfðingja á landinu í þá daga.  Jón felldi niður fégjöld að miklu leyti, en til að koma til móts við Sturlu, bauðst hann til að fóstra son hans Snorra, sem þá var á þriðja ári.  Með því að bjóðast til að taka Snorra í fóstur er Jón að votta Sturlu ákveðna virðingu, en það að taka börn annarra í fóstur tíðkaðist gjarnan á þessum tíma ef menn vildu tengjast ákveðnum ættum til að auka áhrif sín.  Þar sem Jón var einna mestur höfðingja landsins á þessum tíma var þetta upphefð fyrir Sturlu.  Þannig atvikaðist það að Snorri er alinn upp á þessu forna fræðasetri, þar sem Sæmundur hafði fyrrum glímt við kölska og sögur virðast hafa verið á hverju strái.  Þá hefur það sennilega haft mikil áhrif á Snorra að vera alinn upp undir verndarvæng slíks höfðingja sem Jón var og Oddaverjar yfirleitt.  Sturla faðir Snorra lést svo þremur árum síðar eða þegar Snorri er fimm ára.

Ekki segir mikið af uppvexti Snorra í Íslendingabók Sturlu, en þegar Jón Loftsson fóstri hans í Odda deyr, má segja að Snorri standi uppi slyppur og snauður, þ. e. hann hafði hvorki fé né mannaforráð.  Féð sem Snorri átti að fá eftir föður sinn hafði Guðný móðir hans eytt, en Sighvatur bróðir hans, sem var talsvert eldri en Snorri, fór með Snorrungagoðorðið, sem þó strangt til tekið átti að skiptast á milli bræðranna.  Þá var brugðið á það ráð sem menn notuðu gjarnan í þá daga, en það var að leita ríks kvonfangs.  Sökum ætternis og tengsla við Oddaverja var hægt að leita eftir vænlegu gjaforði til handa honum. Þeir Sæmundur fóstbróðir hans, sonur Jóns Loftssonar, og Þórður bróðir hans biðja handa honum Herdísar Bersadóttur á Borg á Mýrum, en Bersi faðir hennar þótti með efnaðri mönnum og fór með goðorð þeirra Mýramanna.  Lagði Guðný móðir Snorra Hvammsland til kvánarmundar Snorra, þ.e. hún lét Snorra fá það til eignar.  Er brúðkaupið haldið þar síðla sumars 1199.  Ekki hófu þau samt búskap þar, heldur fara þau í Odda og eru þar til að byrja með.  Þegar Bersi prestur andaðist 1201 tók Snorri allan arf eftir hann og flytja þau sig um set og hefja búskap á Borg, föðurleifð Herdísar.  Fimm árum síðar, eða árið 1206, skipast veður í lofti, en þá flyst Snorri í Reykholt, sem hann hafði eignast með samningum.  Herdís varð eftir á Borg og má ætla af því að samvistir þeirra hafi ekki verið sem bestar og að hagkvæmnis-hjónabandið hafi ekki gefist alls kostar vel í það sinn.  Snorri og Herdís áttu tvö börn saman, stúlku sem hlaut nafnið Hallbera og Jón murt.  Var Snorri ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum, en getið er nokkurra barna sem hann átti utan hjónabands.  Af þeim komust upp sonur sem hlaut nafnið Órækja og tvær dætur, Ingibjörg og Þórdís.
Í Reykholti vex vegur Snorra til muna, en staðnum fylgdi Reykhyltingagoðorð.  Er hans á þessum árum getið víða og telst hann orðið með  mestum höfðingjum á landinu.  Hann var t. a. m. lögsögumaður frá 1215 til 1218 og aftur árin 1222 til 1231. Eins og aðrir höfðingjar fylgdist Snorri vel með því sem gerðist í Noregi og annars staðar í hinum norræna heimi. Á Íslandi hafði Snorri ort kvæði um Hákon jarl galinn og Skúla jarl og  fengið að launum gjafir sendar.  Menn vissu því vel hver Snorri Sturluson var úti í Noregi.  Sumarið 1218 ræðst Snorri svo til utanfarar og dvelur með Hákoni konungi, sem þá var aðeins 15 ára gamall og Skúla jarli, sem hafði mest um stjórn landsins að segja meðan Hákon var ekki eldri.  Er honum vel tekið þar.

Tveim vetrum síðar hyggur hann á heimferð, en þá var svo komið málum á milli Íslendinga og Norðmanna að Norðmenn íhuguðu að senda hingað her.  Var það vegna deilna Oddaverja við kaupmenn frá Björgvin.  Forystumaður Oddaverja á þessum tíma var Snorra gagnkunnugur, en það var Sæmundur Jónsson Loftssonar, þess er tekið hafði Snorra í fóstur.  ,,Snorri skarst í mál þessi og reyndi að miðla þeim.  Kallaði það betra ráð að  friða fyrir kaupmönnum og ná síðan yfirráðum yfir landinu með vinmálum og samningum, en eigi hernaði.” Lofar hann að ganga í þau mál fyrir hönd Norðmanna ásamt bræðrum sínum (Sighvati og Þórði) og skyldi Snorri senda utan son sinn Jón murt sem tryggingu.  Virðing Snorra vex enn við þetta og þeir Hákon og Skúli gerðu hann lendan mann sinn og jarl gaf honum skip til að sigla á heim.  Ekki virðist Snorri hafa sótt erindi Norðmanna fast á Íslandi, en friður virðist þó hafa komist á milli kaupmanna og Íslendinga.  Snorri sendi Jón murt út og var hann hjá Skúla jarli í þrjú ár.  

Þegar Snorri kemur aftur til Íslands heldur hann uppteknum hætti og reynir að tryggja sér aukin völd og festa sig í sessi sem höfðingi.  Eftir að hafa deilt við Þorvald Vatnsfirðing sættust þeir og Snorri gaf honum svo Þórdísi dóttur sína til konu.  Þá giftir hann Ingibjörgu dóttur sína Gissuri Þorvaldssyni af ætt Haukdæla, þeim er lét á endanum drepa Snorra.  Hallberu dóttur sína giftir hann síðan Kolbeini unga af ætt Ásbirninga er réðu yfir Skagafirði.  Sjálfur gerir Snorri helmingafélag við Hallveigu Ormsdóttur, sem þá var auðugust kona á Íslandi.  Virðist Snorri koma að flestum þeim málum sem eitthvað kvað að á landinu í þann tíma.  Leiddi það stundum til átaka og  meðal annars lendir hann í deilum við bróðurson sinn Sturlu Sighvatsson, en Sighvatur faðir hans hafði fengið honum Snorrungagoðorð til kvánarmundar, en þar sem bræðurnir voru þrír, Sighvatur, Þórður og Snorri, áttu þeir allir rétt á þriðjungi goðorðsins.  Krafðist Snorri ásamt Þórði bróður sínum, síns hlutar og höfðu þeir bræður sigur í því máli. 

Ekkert virtist geta stöðvað Snorra á þessum tíma.  Sjálfur var hann orðinn mjög auðugur og valdamikill, auk þess sem hann í gegnum giftingar dætra sinna hefur frændsemi við helstu höfðingjaættir landsins.  Má segja að í kringum 1230 hafi hann verið orðinn voldugastur allra höfðingja á Íslandi.  Þá höfðu Sturlungar bein völd eða sterk ítök í öllum landsfjórðungum nema Austfjörðum.  Og það sem er kannski merkilegast við þetta allt saman var að ,,veldi hans hafði risið styrjaldarlaust og með svo skjótum hætti, að slíks eru engin dæmi önnur hér á landi.”   Ekkert ber þó neitt á því að hann reyni að efna loforð sitt við konung um að koma landinu undur hann.
En skjótt skipast veður í lofti.  Kolbeinn ungi skilur við Hallberu dóttur Snorra og í kjölfar þess kallar Snorri eftir hálfum mannaforráðum hans.  Þá skildi Gissur Þorvaldsson við Ingibjörgu dóttur hans, svo tengslin við Haukdæli skaðast einnig, enda hafði Snorri gengið fast eftir því að sækja sín réttindi í báðum þessum skilnaðarmálum.  Varð af þessu fullur fjandskapur milli Kolbeins og Gissurar annars vegar og Snorra hins vegar.  
Þegar hér er komið sögu fer Sturla Sighvatsson ásamt með föður sínum Sighvati, bróður Snorra, að láta meira að sér kveða.  Sighvatur nær undir sig goðorði Eyfirðinga og fer vegur þeirra þeirra feðga vaxandi.  Tuttugu og fjögurra ára gamall fær svo Sturla Sauðafell og Snorrungagoðorð sem kvánarmund frá föður sínum, sem hann varð þó að skila aftur til Snorra og Þórðar föðurbræðra sinna eins og áður hefur verið vikið að.  Hann giftist Sólveigu dóttur Sæmundar Jónssonar Oddaverja, sem þá var nýlátinn og fær með henni mikinn föðurarf.  Framtíðin er björt og ekkert virðst geta grandað slíku stórmenni.  En það er eins með hann og föðurbróður hans, Snorra, að hann virðist hreinlega elta uppi átök og deilur, ekki síst ef hann heldur að eitthvað sé upp úr því að hafa.  Lenda þeir feðgar í deilum víða og meðal annars dragast þeir inn í deilur Norðlendinga við Guðmund biskup Arason og ganga hart fram í því máli.  En eins og máltækið segir, kapp er best með forsjá og einhvern veginn æxlast málin þannig að þeir bera skarðan hlut frá borði í flestum deilum.  Á endanum er staða þeirra orðin það slæm að þeir sjá sitt óvænna og ,,þegar erkibiskup í Niðarósi heimtar utanför þeirra feðga fyrir mótgang þeirra við Guðmund biskup, þá fer hann (Sturla) utan og lætur ekki staðar numið, fyrr en hann hefur látið leiða sig berfættan frá einum kirkjudyrum Rómaborgar til annarra.”   Tíðkaðist sá háttur gjarnan í Evrópu á þessum tíma að menn fóru til Rómar og gengu þar um sem beiningamenn til að fá fyrirgefningu synda sinna.  En á leiðinni heim úr utanför sinni kemur Sturla við  hjá Hákoni konungi og segir sagan að vel hafi farið með þeim.  Samkvæmt Sturlu Þórðarsyni hafði Sturla lofað Hákoni konungi að koma landinu undir hann, eins og Snorri hafði gert nokkrum árum fyrr.  Og það má kannski til sanns vegar færa, því þegar hann kemur aftur til Íslands árið 1235 er allt annar bragur á honum og hann hegðar sér eins og sá sem valdið hefur og gæti það bent til þess að hann hafi haft vísan stuðning konungs á bak við sig.

Meðan Sturla var úti höfðu mál skipast nokkuð heima á Íslandi.  Sighvatur faðir hans hafði ekki setið auðum höndum og hafði veldi hans stórum aukist frá því Sturla fór út.  En samt fannst þeim ekki nóg að gert.  Veturinn eftir að Sturla kemur til Íslands gera þeir feðgar atlögu að Reykholti, en Snorri hafði haft spurnir af komu þeirra, og tókst að flýja.  Hefur það verið lykilatriði fyrir Sturlu ef hann ætlaði sér að ná yfirráðum yfir landinu að ná  undir sig veldi Snorra föðurbróðir síns og þá hefur hann eflaust ekki verið búinn að fyrirgefa Snorra, þegar hann hafði af honum Snorrungagoðorðið.  Það að Snorri snýst ekki til varnar gegn þeim Sturlu og Sighvati er líka athyglisvert, en það verður í raun að teljast einkennandi fyrir Snorra hvernig hann forðast öll bein átök, hver sem ástæðan hefur verið, en sumarið eftir hélt Snorri svo öðru sinni til Noregs.  Nú var svo komið að Sturla og faðir hans réðu yfir stórum hluta landsins og,  eftir því sem sagan segir, stóðu aðeins Haukdælir, með Gissur Þorvaldsson í fararbroddi, í vegi fyrir því að hann næði öllu landinu á sitt vald. Sturla leitar nú leiða til að ryðja þessari síðustu hindrun úr vegi.  Gerir hann Gissuri Þorvaldssyni orð og biður hann að hitta sig við Apavatn og hafði Sturla marga menn með sér til fundarins. Þegar Gissur kemur þangað er hann snarlega handtekinn og Sturla þröngvar honum til að sverja sér hollustueið.  Segir Sturla Þórðarson svo frá þeim atburði í Íslendinga-bók:

 ,,Gissur spyr Sturlu þá, hví hann léti leggja hendur á hann.  Sturla bað hann ekki efast í því að hann ætlaði sér meira hlut en öðrum mönnum á Íslandi. ,,En mér þykir sem þá séu allir yfirkomnir, er þú ert, því að ég uggi þig einn manna á Íslandi, ef eigi fer vel með okkur.
Goðorð hans selur hann í hendur öðrum manni, tengdum Gissuri, sem aftur á móti lofar að styðja Sturlu í öllum hans málum.  Eitthvað virðist Sturla hafa verið á báðum áttum með hvað hann ætti að gera við Gissur, en það hlýtur að teljast til hans mestu mistaka að leyfa honum að komast undan við svo búið.  Hann hefði mátt vita að Gissur tæki slíkri meðferð sem hann hafði hlotið við Apavatn ekki með þegjandi þörfinni.  Og hvað hollustueiðinn varðaði, þá hefur hann varla talið sig bundinn af honum eftir aðfarir Sturlu.  Gissur sem fram að þessu hafði ekki blandað sér mikið í þau átök sem Sturla hafði komið af stað var hættulegur óvinur og átti víst fylgi á bak við sig.  Hjá honum virðist hafa farið saman þeir eiginleikar sem best prýða góða leiðtoga, þolinmæði og að fylgja því ákveðið eftir sem hann tók sér fyrir hendur.  Um Gissur fer Sturla Þórðarson eftirfarandi orðum og er ekki laust við að það gæti aðdáunar á manninum:   ,,Gissur var meðalmaður á vöxt og allra manna best á sig kominn, vel limaður, snareygður – og lágu fast augun – og skýrlegur í viðbragði, betur talaður en flestir menn hér á landi, blíðmæltur og mikill rómurinn, enginn ákafamaður og þótti jafnan hinn drjúglegasti til ráðagerðar.  En þó bar svo oft til, þá er hann var við deilur höfðingja eða venslamanna sinna, að hann var afskiptalítill, og þótti þá eigi víst hverjum hann vildi veita.  Hann var frændríkur og flestir hinir bestu bændur fyrir sunnan land og víðar voru vinir hans.”   Það var sem sagt ekki við neinn meðalmann að eiga og að fara með svikum að honum, taka af honum mannaforráð og sleppa honum svo í kjölfarið virðist benda til alvarlegs dómgreindarleysis af Sturlu hálfu.  Enda átti það eftir að koma á daginn.     Fljótt í kjölfar þessa atburðar fer Gissur og gerir samkomulag við Kolbein unga, leiðtoga Ásbirninga og þeir afráða að láta til skarar skríða gegn Sturlu.
Sturla heldur fast við þá ákvörðun sína að ná landinu undir sig og safnar saman liði og heldur til Skagafjarðar með margt manna.  Kolbeinn hefur njósn af ferðum Sturlu og hann og Gissur safna saman ofurefli liðs og halda til móts við hann.  Átök milli hinna stríðandi fylkinga verða ekki umflúin. Það er svo á stað sem heitir Örlygsstaðir í Skagafirði sem Gissur og Kolbeinn ráðast með um sautján hundruð manna lið að þeim Sturlu og Sighvati sem eru mun liðfærri.  Þó svo að Sturla hafi vitað að brátt mundi draga til tíðinda virðist sem árásin komi þeim nokkuð á óvart, en skildir þeirra voru bundnir við hesta þeirra og þeir ná ekki að losa þá. Fylkingunum lýstur saman og eftir stutta en snarpa viðureign vinna þeir Gissur og Kolbeinn fullan sigur.  Féllu 49 menn úr liði Sturlu, en einungis átta úr liði Gissurar og Kolbeins.  Bæði Sturla og Sighvatur voru vegnir.  Átti þetta sér stað í ágúst 1238.

Þegar þessir atburðir eiga sér stað er Snorri staddur hjá Skúla jarli úti í Noregi, en þangað fór hann eins og áður kom fram þegar Sighvatur og Sturla höfðu hrakið hann úr Reykholti.  Er hann spyr fall Sighvats bróður síns og sona hans, kvað hann vísu og sendi hana til Þórðar kakala Sighvatssonar, bróður Sturlu, sem þá var einnig staddur út í Noregi.  Vísan er svona:

Tveir lifið, Þórðr, en þeira
þá vas æðri hlutr bræðra,
rán vasa lýðum launat
laust, en sex á hausti.
Gera svín, en verðr venjask
vár ætt, ef svá mætti,
ýskelfandi, ulfar,
afarkaupum samhlaupa.

Segir Sturla í Íslendingabók um þessi viðbrögð Snorra: ,,Þótti honum hinn mesti skaði eftir Sighvat bróður sinn, sem var, þó að þeir bæru eigi gæfu til samþykkis stundum sín á milli.”   Sýnir þetta á margan hátt innræti Snorra að hann skuli finna til missis er hann fréttir víg þeirra Sighvats og Sturlu og ekki síst í ljósi þess að það voru þeir feðgar sem árinu áður höfðu farið með flokk manna til að taka Reykholt, en hann náð að flýja.              Dvelur Snorri veturinn eftir í Niðarósi hjá Skúla jarli ásamt Órækju syni sínum, en Þórður kakali í Björgvin hjá Hákoni konungi.  Hefur Snorri áreiðanlega viljað komast sem fyrst til Íslands, því nú þegar Sighvatur og Sturla voru fallnir frá stóð hann til að erfa veldi þeirra ásamt með Þórði kakala.  En til þess að geta gert kröfu um það, þurfti hann að bregðast skjótt við því Gissur og Kolbeinn höfðu öll ráð í hendi sér úti á Íslandi.  En er þeir búast til fararinnar berast boð frá Hákoni konungi sem bannar öllum Íslendingum að fara utan.  Á þessum tíma er Skúli jarl að undirbúa uppreisn gegn Hákoni konungi og má leiða að því líkum að Snorri hafi verið kunnugur því ráðabruggi.  Snorri á vitanlega að hlýða boði konungs enda lendur maður hans, en þá segir hann hina frægu setningu:  ,,Út vil ek”.  Er heim er komið sest hann að í Reykholti og hefur hægt um sig. 
En skömmu eftir að hann kemur heim, sumarið 1241, deyr Hallveig Ormsdóttir og ,,þótti Snorra það allmikill skaði, sem honum var”.  Synir Hallveigar leita nú eftir sínum hluta af arfi eftir Hallveigu, en Snorri vill ekki veita þeim eins mikið og þeir telja sig eiga rétt á.  Leita þeir þá til Gissurar Þorvaldssonar, sem var föðurbróðir þeirra og lofar hann að hjálpa þeim. Þegar þeir Klængur og Ormur, synir Hallveigar, leita á náðir Gissurar er staða hans orðin mjög sterk.  Ásamt með Kolbeini unga hafði hann flest ráð í hendi sér á landinu. 
Eftir Örlygsstaðabardaga hafði Kolbeinn lagt undir sig veldi Sighvats á Norðurlandi, en Gissur hafði látið Borgfirðinga og Vestfirðinga gjalda sér miklar fésektir.  Ekki hafði komið til beinna átaka milli þeirra og Snorra eftir að hann kom frá Noregi og höfðu þeir þó hist á þingi.  Sumarið eftir að Snorri kemur heim berst Gissuri bréf frá Hákoni konungi, en Gissur hafði gerst skutilsveinn Hákonar konungs árið 1229.  Eftir því sem Gissur sagði frá, vill konungur að hann sendi Snorra utan á sinn fund eða drepi hann ella.
Ekki vitum við hvort Gissur hafi greint satt og rétt frá þessu bréfi, og ,,í Hákonar sögu er það hvergi gefið í skyn að Hákon konungur hafi verið ráðbani Snorra.  Til þess stóðu engin lög, að handgenginn maður konungi væri réttdræpur fyrir sakir sem þær að fara úr landi í konungsbanni.”
Description: Eigi_skal_hoggvaHafa menn viljað gera að því skóna að Gissur hafi í raun einungis viljað ganga endanlega frá þeim höfðingja sem honum stóð mestur stuggur af. Það er svo aðfaranótt 23. september 1241, röskum þremur árum eftir Örlygsstaðabardaga að Gissur kemur með lið manna að Reykholti þar sem Snorri bjó.  Við skulum gefa Sturlu Þórðarsyni orðið: ,,Gissur kom í Reykholt um nóttina eftir Mauritíusmessu.  Brutu þeir upp skemmuna, er Snorri svaf í.  En hann hljóp upp og úr skemmunni og í in litlu húsin, er voru við skemmuna.  Fann hann þar Arnbjörn prest og talaði við hann.  Réðu þeir það, að Snorri gekk í kjallarann, er var undir loftinu þar í húsunum.  Þeir Gissur fóru að leita Snorra um húsin.  Þá fann Gissur Arnbjörn prest og spurði, hvar Snorri væri.
Hann kvaðst eigi vita.
Gissur kvað þá eigi sættast mega, ef þeir fyndust eigi.
Prestur kvað  vera mega, að hann fyndist, ef honum væri griðum heitið.
Eftir það urðu þeir varir við, hvar Snorri var.  Og gengu þeir í kjallarann Markús Marðarson, Símon knútur, Árni beiskur, Þorsteinn Guðnason, Þórarinn Ásgrímsson.
Símon knútur bað Árna höggva hann.
,,Eigi skal höggva,” sagði Snorri.
,,Högg þú,” sagði Símon.
,,Eigi skal höggva,” sagði Snorri.
Eftir það veitti Árni honum banasár, og báðir þeir Þorsteinn unnu á honum.”
Þannig endaði þessi mikli höfðingi, skáld og fræðimaður ævi sína, höggvinn til bana varnarlaus í kjallaraholu án þess að veita nokkuð viðnám.

Það verður þó að segjast eins og er, að þó saga Snorra sé merkileg fyrir margra hluta sakir, er það ekki hún sem haldið hefur nafni hans á lofti allan þennan tíma.  Þótt stjarna Snorra sem veraldlegs höfðingja á Íslandi hafi skinið skært í stuttan tíma, ristir persóna hans í því veraldlega vafstri sem hann stóð í ekki djúpt.  Oft á tíðum er það svo að manni finnst sem Snorri hafi verið ágjarn og undirförull í samskiptum sínum við aðra og lítil hetja í átökum.  Hafa enda fræðimenn sem um líf Snorra hafa skrifað ekki verið á eitt sáttir um persónu hans.  Hafa sumir fundið honum flest til foráttu varðandi samskipti hans við aðra, sérstaklega ef peningar komu eitthvað við sögu, á meðan aðrir hafa dregið upp fegurri mynd af honum og séð ástæðu til að réttlæta flestar hans misgjörðir.  Verður enginn dómur lagður á persónuna Snorra hér, en mönnum bent á að lesa þær bækur sem ritaðar hafa verið um Snorra og draga sínar eigin ályktanir út frá því.  
Það sem Snorri Sturluson er fyrst og fremst þekktur fyrir er að hann var einhver mesti rithöfundur, sem Ísland hefur alið.  Eftir hann liggja stórvirki á borð við Snorra Eddu, sem er kennslubók í skáldskap og goðafræði, og Heimskringla, þar sem sögð er saga Noregskonunga frá upphafi til 1177.   Þá hefur honum stundum verið  eignuð Egils saga Skallagrímssonar, einhver stórbrotnasta ævisaga, sem skráð hefur verið, og fleiri rit.. 
Við skulum kíkja í smábrot úr Snorra-Eddu, sem hefst á Gylfaginningu, en þar segir frá Gylfa nokkrum konungi í Svíþjóð sem fer til Ásgarðs til að forvitnast um goðin.  Gefum Snorra orðið.
,,Gylfi konungur var maður vitur og fjölkunnugur.  Hann undraðist það mjög, er ásafólk var svo kunnugt, að allir hlutir gengu að vilja þeirra.  Það hugsaði hann, hvort það mundi vera af eðli sjálfra þeirra, eða mundi því valda goðmögn þau, er þeir blótuðu.  Hann byrjaði ferð sína til Ásgarðs, og fór með laun og brá á sig gamals manns líki og duldist svo.  En æsir voru því vísari, að þeir höfðu spádóm og sáu þeir ferð hans, fyrr en hann kom, og gerðu í móti honum sjónhverfingar.  En er hann kom inn í borgina, þá sá hann þar háa höll, svo að varla mátti hann sjá yfir hana.  Þak hennar var lagt gylltum skjöldum svo sem spánþak.  Svo segir Þjóðólfur hinn hvinverski, að Valhöll var skjöldum þökt:

Á baki létu blíkja,
barðir voru grjóti,

Sváfnis salnæfrar
seggir hyggjandi.

Gylfi sá mann í hallardyrunum og lék að handsöxum og hafði sjö senn á lofti.  Sá spurði hann fyrr að nafni.  Hann nefndist Gangleri og kom inn af refilsstigum, og beiddist að sækja til náttstaðar og spurði hver höllina ætti.  Hann svarar, að það var konungur þeirra,  ,,en fylgja má ég þér að sjá hann; skaltu þá sjálfur spyrja hann nafns”, og snerist sá maður fyrir honum inn í höllina, en hann gekk eftir, og þegar laukst hurðin á hæla honum.  Þar sá hann mörg gólf og margt fólk, sumt með leikum, sumir drukku, sumir með vopnum og börðust.”
Þannig hefst Gylfaginning, en konungurinn sem Gylfi hittir er að sjálfsögðu Óðinn og eiga þeir tal saman, sem allir hefðu bæði gagn og gaman af að lesa.


Sigurður Nordal bls. 15

Björn Þorsteinsson bls. 276

Gunnar Benediktsson bls. 51

Sturla Þórðarson  bls. 176

Sturla Þórðarson bls. 166

Sturla Þórðarson bls. 198

Gunnar Benediktsson bls. 68

Sturla Þórðarson – Íslendingasaga bls. 210 - 211