Stefán frá Hvítadal

Stefán frá Hvítadal (1887-1933) varð fyrstur til að boða þáttaskil í íslenskri ljóðlist við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann var fæddur á Hólmavík en ólst að nokkru leyti upp í Hvítadal í Dalasýslu og kenndi sig við þann bæ. Á Siglufirði og Akureyri lágu leiðir þeirra Þórbergs Þórðarsonar saman og segir Þórbergur frá kynnum þeirra í Íslenskum aðli. Stefán dvaldist um tíma í Noregi og mun sú dvöl hafa dýpkað lífsreynslu hans auk þess sem honum gafst kostur á að kynnast norskri ljóðagerð. Þar rakst hann á einfaldan og ljóðrænan bragarhátt sem hann tók tryggð við og tileinkaði sér raunar alveg. Þegar hann kom heim sendi hann frá sér fyrstu ljóðabók sína, Söngva förumannsins, árið 1918. Hann var þá orðinn rösklega þrítugur, fullþroskaður og fullmótaður, enda markaði bókin tímamót og aflaði höfundi mikillar lýðhylli, sérstaklega meðal ungu kynslóðarinnar sem hreifst af hinum létta stíl og ljúfsáru yrkisefnum. Og ekki spillti það fyrir að höfundurinn var sjálfur hálfgildings förumaður, nýkominn heim eftir alllanga dvöl í framandi landi, fátækur og heilsulaus og þó enginn hversdagsmaður heldur höfðinglegur í allri sinni fátækt, öruggur í framgöngu og ágætlega til þess fallinn að verða persónuleg fyrirmynd hinnar ungu, óþreyjufullu skáldakynslóðar sem fagnaði nýjum skáldum í draumórakenndri hrifningu. Og næsta áratuginn kom út fjöldi bóka sem báru með sér svipuð einkenni og Söngvar förumannsins.

Stefán hafði snemma sýkst af berklum svo taka varð af honum annan fótinn og gekk hann haltur síðan. Sjúkdómur þessi vofði yfir honum alla ævi og lagði hann í gröfina fyrir aldur fram. Vitundin um nálægð svo banvæns sjúkdóms setur mark sitt á kvæði hans, ekki síst hin fyrstu. Sú meðvitund lýsir sér annars vegar í dauðageig en hins vegar í lofgerð um lifið og þessa heims lystisemdir. Feigðin jók lífsþrána og dýpkaði tilfinningarnar og þeim mun dýrmætara varð hvert andartak lífsnautnar og munaðar. ,,Ég er frelsaður, Feigð, / ég hef faðmað og kysst,'' segir t.d. í kvæðinu Hún kyssti mig.

Skömmu eftir heimkomuna gerðist Stefán bóndi í Dölum vestur. Tregablandið ævintýr förumannsáranna var liðið. Við tók einyrkjabúskapur með öllu því basli sem honum var samfara, fábreytileik erfiðisins og andlegri einangrun. Næsta ljóðabók bar nafnið Óður einyrkjans (1921). Hún hefst á kvæðinu Bjartar nætur sem er fagnaðaróður til íslenskrar náttúru og eitt af bestu kvæðum Stefáns. Að öðru leyti ber sú bók nokkur þreytumerki; lífsgleði skáldsins var tekin að þverra.

Einlæg trúhneigð kemur fram í ljóðum Stefáns frá Hvítadal allt frá fyrstu bók og nokkrum árum eftir heimkomuna frá Noregi snerist hann til kaþólskrar trúar. Eftir það varð trúin og kirkjan honum kært yrkisefni og þeim málefnum helgaði hann ærinn hluta þeirra ljóða sem hann orti síðustu árin sem hann lifði.