Sigurður Róbertsson

Sigurður Róbertsson fæddist að Hallgilsstöðum í Fnjóskadal 10. janúar árið 1909. Snemma hneigðist hugur hans að ritstörfum en það er þó ekki fyrr en árið 1936 að fyrsta saga hans Jarðarförin birtist í Nýjum kvöldvökum. Var hún birt undir dulnefninu Þórir þegjandi. Í kjölfar hennar komu svo sögurnar Eitur, Atli, Griðastaður og Kain sem allar birtust í Nýjum kvöldvökum.Árið 1938 lítur fyrsta bókin dagsins ljós, en hún hét Lagt upp í langa ferð, og innihélt átta smásögur. Var henni vel tekið. Uppfrá því skrifaði Sigurður jöfnum höndum sögur sem margar hverjar voru og eru mjög áhugaverðar. Þá lagði Sigurður fyrir sig leikritagerð og var t.a.m. leikritið ,,Maður og mold" sýnt í Þjóðleikhúsinu.  Hlaut hann margvíslegar viðurkenningar fyrir leikrit sín.  Sigurður lést árið 1996.