Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum

ÓlöfÓlöf frá Hlöðum var ein af fáum kvenskáldum sem gátu sér orðs á 19. öld.  Ljóðakver kom fyrst út eftir hana árið 1888 og var það með fyrri ljóðabókum sem út komu eftir konu á Íslandi.  Ólöf orti undir áhrifum frá raunsæisstefnunni og bera ljóð hennar skýran vott sjálfstæðrar hugsunar; konu sem engan lét kúga sig til hlýðni, og verður það að teljast nokkuð óvenjulegt á þeim tíma.

Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum fæddist að Sauðadalsá á Vatnsnesi 9. apríl árið 1857.  Árið 1906 ritaði hún ritgerð í blaðið Eimreiðina, þar sem hún segir frá fyrstu árum sínum.  Við skulum gefa henni orðið:

,,Ég fæddist 1857 á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu.  Þegar ég man fyrst eftir bjuggu foreldrar mínir á ofurlitlu koti fremst í dalverpi litlu.  Í því byggðarlagi var menning mjög lítil, og við enn afskekktari en aðrir, svo enginn minnsti menningargeisli hafði áhrif á okkur.  Móðir mín hafði gifst tvisvar, eignast 16 börn og var ég næst því yngsta.  10 urðum við fullorðin, 9 ólust upp heima, eitt annars staðar með fullri meðgjöf frá foreldrunum.  Fátækt var mikil meðan börnin voru ung, en allgóður efnahagur síðan.  Börnin voru látin burtu jafnskjótt og þau gátu fengið vist og unnið fyrir sér...”

Og síðar í sömu ritgerð: 

,,Húsakynni voru eins og moldarkofarnir okkar geta verstir verið.  Baðstofan lítil og lág með torfbálki, óþiljuð öll, nema lagðar lausar fjalir fyrir ofan rúmin.  Rúmstæðin torfbálkur með rúmstokki og fótagafli úr fjölum.  Ekkert borð, ekkert sæti annað en rúmin. .... Til ljósa á vetrum var höfð hrossafeiti eða sellýsi.” 

Er greinin öll hin nöturlegasta og lýsir vel hvernig ástatt var víða til sveita á þeim árum.  Endar hún greinina á því að segja að hún hafi vitað minna á fermingaraldri en hún viti dæmi um fullvita fólk. 

Með þetta veganesti lagði hún svo út í hinn stóra heim og kom til Reykjavíkur árið 1876, þá nítján ára gömul.  Þar fór hún að læra að verða ljósmóðir hjá Jónasi Jónassen lækni.  Í Reykjavík kynntist hún einnig Þorsteini Erlingssyni skáldi og hefur það áreiðanlega ýtt undir hennar eigin skáldhneigð.  Eftir að hún lauk námi hjá Jónassen hélt hún til Kaupmannahafnar í eitt ár ('82-'83) til að læra meira. 

Þegar heim var komið starfaði hún sem ljósmóðir í Reykjavík, við erfið kjör og þá hrjáðu hana berklar frá fyrri tíð.   Vegna veikinda varð hún að hætta að vinna og giftist Halldóri Guðmundssyni trésmiði.  Hófu þau búskap að Hlöðum í Hörgárdal, bænum sem hún er kennd við.  Ári síðar kom út fyrri ljóðabók hennar sem áður er nefnd. 

Ljóð Ólafar eru brennd marki erfiðs uppvaxtar og þeirra viðja sem ónógt frelsi bindur, en þó eru ljóð hennar persónulegri en tíðkaðist og sjónarhornið annað en hjá t.a.m. karlkyns skáldum þess tíma.  Vonbrigðin með sitt hlutskipti leyna sér ekki.  Ástin er henni ofarlega í huga, og þá aðallega ófullnægð ást og þráin eftir hinni sönnu ást.  Þá kemur fram sterk tilhneiging til að búa við frelsi og vera öðrum óháð, en hún og maður hennar Halldór bjuggu svo að segja aðskilin þó að þau byggju á sama bæ.  Var það fyrst og fremst að hennar ósk, en sýnir líka hvern mann Halldór hafði að geyma að láta þetta eftir henni. 
Á efri árum flutti hún svo frá Hlöðum til Akureyrar og þaðan svo til Reykjavíkur, þar sem hún lést árið 1933.