Jóhann Sigurjónsson

Um rithöfundinn Jóhann Sigurjónsson hefur ávallt leikið nokkur dulúð. Ungur hélt hann utan til að læra að verða dýralæknir, en áður en hann fengi lokið því námi hafði skáldskapurinn náð tökum á honum og hann ákvað að reyna fyrir sér sem leikritahöfundur. Var það að renna blint í sjóinn og gegn allri skynsemi enda engin fordæmi fyrir slíku. En Jóhanni tókst hið ómögulega. Strax með öðru leikritinu sem hann skrifaði á dönsku, Rung lækni, vakti hann töluverða athygli.
Fékkst það útgefið hjá Gyldendal-forlaginu og þó að leikhúsin sýndu því tómlæti var það eitt og sér töluverður heiður að fá leikrit útgefið á bók.

En það var svo með leikritinu Fjalla-Eyvindur sem kom út árið 1911 að frægðarsól Jóhanns fór að skína fyrir alvöru. Var leikritið frumsýnt á Íslandi það sama ár og árið eftir í Kaupmannahöfn. Hlaut það nánast einróma lof allra og í kjölfarið var leikritið tekið til sýningar út um öll Norðurlönd og víðar í Evrópu við góðar undirtektir. Þó svo að næstu leikrit Jóhanns næðu ekki sömu hylli höfðu Íslendingar eignast sitt fyrsta alvöru leikritaskáld.

Jóhann féll frá langt fyrir aldur fram og er óhætt að segja að íslenskar bókmenntir hafi þar misst mikið.