Jóhann Jónsson

Jóhann JónssonJóhann Jónsson skáld skildi ekki mikið ljóðasafn eftir er hann kvaddi þennan heim ungur að árum, en ljóð hans, ,,Söknuður” er eitt fallegasta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu, og þó svo að liðin séu um áttatíu ár síðan það kom út hefur snilld þess hvergi fölnað og stendur það enn á jafntraustum grunni og þegar það var ort.  Ljóðið er einnig merkilegt fyrir það að  ásamt með ljóðinu Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson er það talið marka upphaf nútíma ljóðagerðar.  Nýtt og ferskt form þess olli straumhvörfum í íslenskri ljóðagerð.
Jóhann fæddist 12. september 1896 á fornbýlinu Staðarstað, á sunnanverðu Snæfellsnesi, en fluttist barnungur norður fyrir Jökul, til Ólafsvíkur.
Fátækt og heilsuleysi einkenndu líf Jóhanns á barnsaldri. Hjónaband foreldra hans var ekki gæfusamt. Þau áttu fátt annað sameiginlegt en að vera eignalaust vinnufólk þegar þau kynntust. Faðir hans Jón Þorsteinsson, sem þá var ekkjumaður, var þrjátíu árum eldri en móðir Jóhanns. Hann þótti drykkfelldur og kom fyrir að Bakkusarblót gengi fyrir nauðþurftum fjölskyldunnar. Móðir Jóhanns var Steinunn Kristjánsdóttir. Samband mæðginanna var alla tíð sterkt. Steinunni er lýst sem mikilli gáfukonu og þrátt fyrir að hlyti  enga skólamenntun var hún geysifróð; kunni ódæmi af gömlum sögnum, sögum og ævintýrum. Þótt Jóhann yfirgæfi æskustöðvarnar snemma hélt hann ávallt sterkum tengslum við móður sína.
Jóhann var bráðþroska og námfús og var móðir hans ötul að kenna honum allt það sem hún kunni. Strax og hann fór að tala kom í ljós mikið næmi fyrir því sem fagurt var. Snemma bar líka á óvenjulegri sköpunargáfu hjá drengnum. Í viðtali við Þorbjörgu Guðmundsdóttur frænku Jóhanns (1973) segir hún á einum stað:  „Hann gat farið á kostum í hugarheimi án umhugsunar. Ævintýrin streymdu af vörum hans, sköpuðust jafnóðum og hann sagði þau fram. Inn í þetta fléttaði hann smákvæðabrotum. Jóhann hafði mikla og óvenju glæsilega söngrödd og söng mikið. En veikin kom snemma og lokaði dyrum þessa dýrðarsalar.“
Jóhann veiktist á unga aldri af berklum í fæti og náði eftir það aldrei fullri heilsu. Veturinn, sem hann fermdist, var hann alveg rúmliggjandi. Presturinn í Ólafsvík, sr. Guðmundur Einarsson frá Flekkudal, tók þá að sér að kenna Jóhanni og hefur líkast til fljótt komið auga á hvað í honum bjó. Eftir fermingu kenndi hann Jóhanni áfram og lagði allt kapp á að hann kæmist suður í skóla. En Jóhann var meira og minna veikur þessi ár og lá jafnvel misserum saman rúmfastur.
Síðar á ævinni sagði Jóhann þýskum vini sínum frá ömurlegum atvikum úr æsku: Níu ára gamall hafði hann á heitum degi í miðjum slætti fleygt sér á jörðina, örþreyttur, og viljað hvílast en bóndinn barið hann næstum í hel fyrir tiltækið. Á öðrum bæ rak bóndi hann út í kalda nóttina til að leita fjár. Skilaboð bónda voru þau að ef drengurinn kæmi ekki með allar ærnar aftur ætti hann á engu öðru von en dauða sínum. Á slíkum stundum var gott að eiga athvarf í annarri veröld, í furðuheimum bókmennta og söngs.
Margir eru til vitnis um að Jóhann hafi haft einkennilega sterkan framsagnarhæfileika. Dámagnað augnaráð hans skipti litum eftir því frá hverju var sagt og aldrei voru menn vissir um augnalit hans. Allt umbreyttist þegar Jóhann tók að segja sögur úr draumaveröld sinni og sumir sögðust jafnvel hafa fallið í eins konar dásvefn. Með þessum andlega hæfileika sínum vó Jóhann upp líkamlegan vanmátt. Hugarheimur Jóhanns var misskilinn af mörgum. Fólk áttaði sig ekki á drengnum. Fyrir vikið fór hann mikið einförum og var sinn eiginn herra í heimi náttúrunnar. Um þetta segir Þorbjörg frænka hans:
„Þar átti hann sína vökudrauma og sá skáldlegar sýnir. Hvern hól og stein byggðu álfar og dvergar sem þuldu honum ævintýri sín. Í beltum og tindum fjallanna bjuggu vættir sem héldu vörð um heiður lands og manns. Og þeir sungu honum hinn óskráða óð kynslóðanna.“
Sumarið 1915 var Jóhann kominn til Reykjavíkur, tæplega 19 ára gamall. Þar kynntist hann Elínu Thorarensen og bast henni sterkum böndum og stóð samband þeirra í rúmt ár. Þau lifðu í eigin draumaveröld, sögðu hvort öðru sögur og ræddu skáldskap. Hún kallaði hann ævinlega Angantý og hann nefndi hana Brynhildi. En margir dagar voru þeim erfiðir svo að þau ákváðu að skilja haustið 1916 og fóru bæði úr bænum, hvort sína leið. Jóhann fór til Akureyrar og tók þar gagnfræðapróf. Síðan lá leiðin aftur suður til Reykjavíkur, í menntaskólann, þar sem hann lauk stúdentsprófi vorið 1920.
Meðal skólafélaga Jóhanns veturinn 1918-1919 var Halldór Guðjónsson frá Laxnesi. Persónuleg kynni tókust ekki með þeim í þetta sinn - enda fimm ára aldursmunur á þeim. Á þessum tíma eru tekin að birtast ljóð eftir Jóhann. Eitt þeirra er Hafið dreymir. Um þetta segir Halldór Laxness í Grikklandsárinu (1980):
„Það gerðist /.../ 1918. Ég rekst á kvæðið í málgagni Þversumflokksins, Landinu, sem hollvinur minn Jakob Smári stýrði. /.../Þó ég botnaði ekki í kvæðinu þá fremur en núna, tók það sér svo örugga bólfestu í hug mér að það hefur tollað þar síðan þrátt fyrir þessa flóknu tilraun til að bjóða sólinni góða nótt. Ég lærði kvæðið svo vel að stundum finst mér ég hafi ort það sjálfur.“
Jóhann var á þessum tíma ekki bara þekktur sem skáld heldur laðaði hann að fólk á upplestrarkvöld í Iðnó og fékk það til að gleyma stund og stað svo að tilfinningarnar tóku völdin. Halldór Laxness segir að Jóhann hafi verið tignaður í Reykjavík sem framsögu- maður rómantískra ljóða og átti það eftir að endurtaka sig síðar í Þýskalandi. Látbragð Jóhanns var mönnum ógleymanlegt hvort sem hann fór með eigin verk eða annarra. Í formála að Kvæðum og ritgerðum segir Halldór að augnaráð hans hafi hlotið „að verða öllum minnisstætt sem sáu manninn, en þó ógleymanlegast vinum hans sem fylgdust með svipbrigðum hans, hverri vipru í andlitinu líkt og sjónleik, þegar hann rakti þeim efni sín, leikrit þau, skáldsögur og ljóð sem héldu látlaust áfram að gróa í sífrjóum hug hans.“
Haustið 1921 sigldi Jóhann til meginlandsins og átti ekki afturkvæmt þaðan í lifanda lífi. Sama ár kvæntist hann Nikólínu Árnadóttur, sem hann í bréfum sínum nefnir ævinlega Nikkelín. Hún var með Jóhanni í Þýska- landi fyrstu árin en þau slitu síðan samvistir. Jóhann dvaldist á ýmsum stöðum í Þýskalandi, s.s. í Harzhéraði, Nurnberg og Berlín - en alla jafna bjó hann í Leipzig.
Leipzig var á þessum tíma fögur borg; hún státaði af glæsilegum byggingum nýríkrar borgarastéttar. Auk þess var Leipzig ein helsta miðstöð menningar og lista í Weimarlýðveldinu; þar blómstraði tónlistar-, bókmennta- og leiklistarlíf í skjóli frægra menntastofnana. Og hvergi í Þýskalandi var bókaútgáfa hlutfallslega blómlegri.
Jóhann stundaði nám í germönskum fræðum við háskólann í Leipzig í ein fjögur ár. Í fyrstu var þar álitlegur hópur Íslendinga við nám og má meðal þeirra telja Jón Leifs, Ársæl Sigurðsson og Arnfinn Jónsson, gamlan vin Jóhanns.
En Jóhann umgekkst ekki aðeins Íslendinga heldur eignaðist hann fljótlega trausta félaga og vini meðal Þjóðverja. Hann var m.a. meðlimur í félagi sem hét „Herminonia“. Þar var líka skáld að nafni Gustav Wolf. Jóhann og Gustav bundust sterkum vináttuböndum og voru hvor öðrum hvatning til listrænna átaka. Í ljós kom að Jóhann reyndist ekki síðri framsögumaður á þýsku en íslensku. Í tímaritinu Mitteilungen der Islandfreunde (1925) ritar Gustav Wolf svo í grein um Jóhann:
„Og síðan hljómaði í glösum og sagt var: „Jóhann!“ Hann átti að tala. Enn þá sé ég fyrir mér andlit hans, eins og ég hef alloft séð það síðar, ráðþrota. Þetta var honum kvöl. - „Ég get það ekki!“ - En að lokum reis hann upp og það ólgaði um þig og hreif þig eins og óveður og þú varðst agndofa. Enginn vogaði að hreyfa sig. Allir voru sem lamaðir. Röddin, svipbrigðin, látæðið - Hann fjötraði þig. Skyndilega þagnaði hann og þá stóðu allir á fætur og hrópuðu til hans fagnaðaróp. Þýski framsögumaðurinn Ludwig Wullner hafði haft sterk áhrif á mig, en eitthvað þessu líkt hafði aldrei komið fyrir mig.“
Mikill örlagavaldur Jóhanns í Þýskalandi var Elísabet Goehlsdorf. Hún var leikari og leikstjóri og vann um tíma sem þulur hjá þýska útvarpinu. Jóhann og Elísabet tóku saman um miðjan þriðja áratuginn. Þau bjuggu saman í fábreytilegri en rúmgóðri risíbúð við Körnerstræti 14 og þar skrifaði Jóhann mörg af eftirminnilegustu bréfum sínum.
Af einkabréfum skáldsins og umsögn vina hans má ráða að Jóhann hefur ekki ætlað sér að ljúka prófgráðu heldur hefur námið þjónað þeim tilgangi að búa hann sem best undir ritstörf.
Veturinn 1924-25 veiktist Jóhann af lungnaberklum sem ágerðust svo að segja má að dauðinn hafi verið daglegur fylginautur hans. Líkamlegur styrkur þvarr en dauðanándin virðist ekki hafa dregið andlegan kjark og þrótt úr skáldinu. Það er umhugsunarvert að stærstu verk sín vinnur hann allra seinustu ár ævi sinnar.
Árið 1930 tókst Jóhann á hendur að þýða skáldsöguna Jón Arason eftir Gunnar Gunnarsson úr dönsku á þýsku. Gunnar, sem var á þessum tíma frægur höfundur í Danmörku, Þýskalandi og víðar, bauð Jóhanni að vinna að verkinu heima hjá sér í Danmörku. Seinna sagði Gunnar Kristjáni Albertssyni:
„Mér ofbauð alveg hreint, aumingja Jóhann. Hann var með tæringu og reykti þessi lifandis ósköp. Ég gat varla komið inn til hans, það var svo mikil reykjarsvæla. Mönnum fannst á þessu að honum gæti ekki verið langs lífs auðið.“
Í bréfi til Gunnars þetta ár talar Jóhann m.a. um afstöðu sína til skáldskapar og fagurfræði:
„Ég er engan veginn neitt sérlega þakklátur skaparanum fyrir það að hann lagði mér slíkt tilfinninganæmi í brjóst, en þetta er nú einu sinni samgróið eðlisfari mínu, og verður ekki af mér skafið. Ég þoli önn fyrir það, þegar átóríseraðir klaufar afmynda sígild og óantastanleg sannindi fegurðarinnar og með frekju og samviskuleysi ginna heiminn til að taka lygina úr sér trúanlega. Það má reyndar vel vera að hægt sé að segja sem svo að einu gildi hverju fleygt sé í lýðinn, sem hvort sem er kann ekki að greina þelið frá toginu. En er það ekki í rauninni fjarska léleg huggun? Vakir ekki eitthvað meira og nauðsynlegra fyrir skapara verksins en sú banala viðleitni: að verða skilinn? Er ekki miklu fremur öll barátta hans við hitt miðuð: að gera hugsjón sinni full skil, án tillits til alls gagns eða ógagns, sem af verkinu kann svo að leiða. Af þessu leiðir að snillingurinn leyfir sér alls enga hendingu, ekkert „ungefahr“ gagnvart verki sínu og því er það líka ætíð, sé það lukkað, einskorðað í sína eigin Einmaligkeit, sem það aðeins fær þrifist í, eins og dýrið í sínu elementi. Hér af leiðir loks eðlilega sú sorglega staðreynd, að þýðing allflestra listaverka er um leið dauði þeirra.“
Halldór Laxness heimsótti Jóhann nokkrum sinnum í Þýskalandi. Um hinstu samfundi þeirra segir hann:
„Seinast heimsótti ég hann síðsumars árið 1932 suðrí Leipsíg. Þá lá hann fyrir dauðanum. Ég sat við rúmstokk hans heilan dag og lángt frammá nótt og hann sagði mér stórfeingilegt skáldverk sem hann hafði fullsamið í huganum: það var um íslenskan saungvara sem saung fyrir allan heiminn, líf hans, stríð og heimkomu. Hefði hraðritari setið við rúmstokkinn og skrifað upp hvert orð sem hann hvíslaði væru íslenskar bókmentir nú snildarverki ríkari. Fám dögum síðar var ég staddur í öðru landi og þá barst mér símskeyti um að hann væri dáinn.“
Bókmenntasögulega tilheyrir Jóhann í aðra röndina þeim hópi skálda sem kenndur er við nýrómantík. Þeirra á meðal eru skáldin Jóhann Sigurjónsson og Jóhann Gunnar Sigurðsson. Þeir voru báðir komnir fram á sjónarsviðið og vel þekktir þegar Jóhann Jónsson var enn við nám í Reykjavík enda töluvert eldri. Á hinn bóginn verður skáldskapur Jóhanns ekki skilinn nema með hliðsjón af því umhverfi sem hann hrærist í, fullorðinn maður. Í Þýskalandi kynnist Jóhann straumum sem hafa unnið sér sess í þýskri Ijóðagerð. Árið 1920 gefur Kurt Pinthus út safn expressjónískra ritverka, „Die Menscheitsdammerung“. Öruggt má telja að Jóhann hafi lesið þessa bók. En hver eru þá sérkenni skáldsins Jóhanns Jónssonar? Hvað einkennir skáldskap hans, einkanlega Söknuð? Gert Kreutzer, prófessor við Kölnarháskóla, sem hefur lengi ígrundað skáldskap Jóhanns, sagði svo í sjónvarpsviðtali (Jóhann Jónsson, RÚV 1991): „Hér verður maður að sundurgreina. Frá sjónarhóli íslenskrar skáldskaparhefðar er Söknuður spánný tegund af ljóði. Erfiðara er hins vegar að dæma um frumleika ljóðsins út frá sjónarhóli expressjónískrar Ijóðagerðar. Hið sérstaka við þetta Ijóð sýnist mér megi fyrst og fremst rekja til persónulegra aðstæðna skáldsins.
Gagnstætt þýska expressjónismanum sprettur ljóðagerð Jóhanns ekki úr hörmungum fyrri heimsstyrjaldar. Tilfinningahiti ljóðsins, sem er sannur en engin eftir- öpun, byggir á aðstæðum þess sem er fjarri ástkærum heimahögum sínum, heltekinn ólæknandi sjúkdómi.“
Jóhann var alla tíð aðþrengdur maður, bæði í andlegum og líkamlegum skilningi. Hann kom til Þýskalands vegna þess að hann þoldi ekki að troða mylluhjól tímans, þoldi ekki að allt stæði í stað. Ungur hverfur hann frá fásinni og fátækt til umhverfis sem hann væntir mikils af. En hann finnur aðeins leifar af veröld sem var: Það er óþekkt Evrópa sem rís úr rústum ófriðarins mikla. Nýi tíminn er genginn í garð en samt er það ekki tími Jóhanns. Í Þýskalandi er Jóhann á mörkum tveggja kynslóða: þeirrar sem lifði af þjáningar fyrri heimsstyrjaldar og þeirrar sem mænir í ofvæni á foringja sinn - og Jóhann tilheyrir hvorugri, hann er landlaus maður. Hann fór til að nema ný lönd en fann þau aldrei því máske voru þau hvergi til. Hann átti ekkert athvarf, hvorki í tíma né rúmi. Í bréfi til Gunnars Gunnarssonar segir Jóhann:
„Við sem erum þeim örlögum háðir að hafa fengið lífsskoðun okkar í skóla gömlu menningarinnar, sem leið undir lok 1914, verðum aldrei annað en „framandi menn í okkar eigin lífi“ svo að ég síteri sjálfan mig. Við getum ekki átt samleið með þeirri kynslóð sem nú er í þann veginn að koma fram á leikvöllinn, - /.../ Þessi kynslóð hefur enga tradition, enga andlega reynslu, af því að hið lifandi samband milli hennar og hinnar andlegu fortíðar þjóðar hennar slitnaði. Hún er vaxin upp á andlegu bersvæði, draumlaus og áttavillt í hvívetna. Um feður sína veit hún fátt nema það, að þeir hafa gert pleite og orðið sér og menningu sinni til blóðugrar skammar í mjög bókstaflegum skilningi og þessa feður hatar hún og fyrirlítur - og um menningu þeirra veit hún það eitt með vissu að hún var - vafasöm.“
Í þessu sama bréfi talar Jóhann spámannlega um komandi hörmungar. Hann sér vofu fasismans nálgast:
„Það er ekki til neins að loka augunum fyrir þessari beisku staðreynd, né heldur fyrir því, að við erum í minnihlutanum og engan veginn vaxnir baráttunni við þetta kompakta majórítet. Reisi heimsblaðið Temps sig upp á afturfæturna - eins og í vikunni sem leið - og erklari Hitler fyrir þann heimskasta kjaftaskúm, sem hingað til hafi borið á í heimspólitíkinni, þá er sú réttláta staðhæfing rödd úr gröf, sem hinir lifandi hvorki heyra né skilja. Fyrir æskuna í Evrópu - og ekki aðeins hina þýsku - þá er þessi skaðræðismaður, „foringínn“, ídealið (hugsjónin). Menn vita, ef aldurs- takmarkið fyrir kosningaréttinn væri nokkrum árum lægra, hefði Hitler fengið absólútan meirihluta, því að æskulýðurinn er h.u.b. undantekningarlaust forfallinn þessu goði með húð og hári.“
Óróinn í brjósti skáldsins verður seint friðaður. Tilefni burtfararinnar virðist hafa týnst á leiðinni og þegar hérvistardögunum fækkar hvarflar hugurinn æ oftar heim til gamla landsins. Tæpu ári fyrir andlát skáldsins er ferðalaginu í vissum skilningi lokið, hugurinn er kominn „heim“ en á bak við endurómar spurningin „hvar?“:
„Annars þekki ég nú víst manna best heimþrána til Íslands. En ég veit jafnframt, að það Ísland sem ég þrái, býr aðeins í sjálfum mér - er fantóm, sem hvergi á sér neitt realítet nema í minni eigin sköpunarþrá og aldrei verður að virkileik nema í gegnum minn sköpunarvilja.
Já, ef til vill erum við hvergi meir í framandi landi en þar heima á Íslandi, eins og það nú er orðið. Ég veit að ótti minn við lífið þar er borinn af réttu instinkti, - íslenska þjóðin, eins og ég þarfnast hennar, er hvergi til, nema í minni eigin ósk. Ég hef í seinni tíð náð í nóg af representöntum hennar til þess að fá vissu mína í þessu efni, og lendi ég heima úr þessu, skeður það eingöngu af neyð.“
Jóhann sá aldrei Ísland aftur, jafnvel þótt neyð hans væri stór. Sjúkdómurinn hafði tekið sig upp aftur og í þetta skiptið herjaði hann á lungun. Í seinasta bréfinu til móður sinnar segir Jóhann:
„Nú er röddin brostin og allt frá mér tekið. Þó er unaðslegt að sitja úti í garðinum, allt umvafið blóma- skrúði og angan þess töfrar. Þýðir ómar berast hvaðan- æva, allt um kring. Og þögnin. Og nú er blessuð Elísabet mín að koma út í garðinn með miðdegis- drykkinn. Og það er dúkur á borði - móðir jörð.“ (Halldór Pjetursson: Sól af lofti líður)
Jóhann lést 1. september 1932. Lík hans var brennt en Elísabet Goehlsdorf flutti hinstu leifar hans til Íslands og voru þær jarðsettar í Ólafsvík, á æskustöðvum skáldsins.
Í ljóðum og lífssögu Jóhanns er staðfest hin þráláta og áhættusama leit að verðmætum. Hann kýs hafið fremur en höfnina og víðsýnið fremur en trausta veggi. Ferðalangurinn fer að heiman til að finna það sem hann á ekki. En hvað finnur hann - eða finnur hann yfirleitt eitthvað? Erfitt er um að dæma. Áleitin er hins vegar sú fullyrðing að núlifandi kynslóðir séu að finna verðmætin sem ferðalangurinn lét eftir á vegferð sinni.

Unnið upp úr grein Inga Boga Bogasonar Leitin endalausa.