Eggert Ólafsson

Eggert Ólafsson var einn af forvígismönnum upplýsingarinnar hér á landi og átti sinn þátt í að vekja Íslendinga til umhugsunar um stöðu sína og hvað þeir þyrftu að gera til að ná sér upp úr þeim hörmungum og doðahugsun sem honum fannst einkenna þá á 18. öld. Eggert lést langt um aldur fram en hugmyndir hans lifðu ekki síst með því að Fjölnismenn fóstruðu þær í riti sínu og héldu nafni hans á lofti. Eggert var náttúrufræðingur að mennt en lagði einnig stund á fornfræði, málfræði, lögfræði, lögspeki og búfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Eggert skrifaði töluvert, bæði kveðskap, greinar og fræði og er t.a.m. talinn frumkvöðull að því að semja samræmdar réttritunarreglur. Þá var hann talinn mikill málverndarsinni. Þekktastur er Eggert þó fyrir bók þá sem hann skrifaði með Bjarna Pálssyni um landshætti á Íslandi, en þeir félagarnir ferðuðust um landið á árunum 1752-77 og söfnuðu gagnlegum upplýsingum um land og þjóð í því skyni að finna leiðir til úrbóta og koma atvinnumálum í betra horf. Eggert fæddist í Svefneyjum í Breiðafirði 1. desember árið 1726. Foreldrar hans voru Ólafur bóndi Gunnarsson og kona hans Ragnheiður Sigurðardóttir. Var Ólafi lýst sem ,,gildum bónda” og sagði Björn prestur í Sauðlauksdal tengdasonur hans að hann hefði verið ,,rómsæll, vinsæll, búsæll og barnsæll” maður. Eignuðust þau hjónin þrjá syni sem allir urðu merkir menn, Jón vísindamaður í Svefneyjum, Magnús lögmann og Eggert. Undirstöðumenntun sína fékk Eggert hjá móðurbræðrum sínum, fyrst séra Sigurði Sigurðarsyni í Flatey og svo Guðmundi sýslumanni á Ingjaldshóli, sem tók hann að sér er Eggert var 12 ára og styrkti hann síðan til náms hér og erlendis. Árið 1746, þá 19 ára, útskrifaðist Eggert úr Skálholtsskóla og það haust sigldi hann til Kaupmannahafnar. Lagði Eggert einkum stund á náttúrufræði og heimspeki. Á svipuðum tíma og Eggert var að hefja nám í Kaupmannahöfn hóf annar Íslendingur nám í náttúruvísindum og læknisfræði þar, en það var Bjarni Pálsson síðar landlæknir. Áttu leiðir þeirra eftir liggja saman. Var þetta nokkuð óvenjulegt að tveir nemendur frá Íslandi hæfu nám í náttúrfræðum á sama tíma við Kaupmannahafnarháskóla, en flestir höfðu fram að því sótt nám í guðfræði eða lögum. Hafa menn ætlað að Harboe biskup hafi átt hönd í bagga með þessa ákvörðun þeirra. Gekk nám Eggerts að óskum og hann vann sér inn aukastyrk fyrir góðan árangur. ,,Vorið 1749 gaf hann svo út fyrsta rit sitt, Um myndun Íslands af jarðeldi. Var það skrifað á latínu. Veturinn 1749-1750 voru þeir Bjarni Pálsson og Eggert fengnir til að setja saman skrá um bækur í bókasafni Kaupmannahafnarháskóla. Í kjölfarið voru þeir svo sendir til Íslands til að hafa uppi á gömlum íslenskum bókum og náttúrugripum. Var ferðin kostuð af sjóði Árna Magnússonar og þótti takast vel. Fóru þeir félagarnir um allt Suðurland þar sem þeir gengu m.a. upp á Heklu fyrstir manna að því vitað er. Komu þeir víða við og rannsökuðu margt. Er þeir félagar komu aftur til Kaupmannahafnar þótti mönnum svo mikið til ferðar þeirra koma að í kjölfarið var ákveðið að senda þá til Íslands í allsherjar rannsóknarferð. Hafði þá um nokkurn tíma verið vilji til að kanna ítarlega landshætti og atvinnumál, með það fyrir augum að gera úrbætur þar sem kostur var. Varð það úr að þeir héldu aftur til Íslands vorið 1752. Voru þeir á fullum launum og styrktir þrifalega til fararinnar. Stóð ferðin til til ársins 1757 eða í rúm 5 ár. Notuðu þeir sumrin til að ferðast en á veturna höfðu þeir aðsetur hjá Skúla Magnússyni í Viðey. ,,Ferðuðust þeir um byggðir allar, gengu á fjöll og jökla næst byggð, söfnuðu miklu af náttúrugripum, steinum, dýrum og grösum, gerðu margs konar mælingar, veðurathuganir o.þ.h., rannsökuðu surtarbrand, ölkeldur, brennisteinsnámur og jarðtegundir, er að gagni mættu verða, og gerðu tilraunir um hreinsun brennisteins og saltsuðu. Náttúrugripi þá, er þeir söfnuðu, sendu þeir jafnharðan til vísindafélagsins og gáfu árlega skýrslur um rannsóknirnar.” Í Kaupmannahöfn héldu þeir svo áfram að vinna úr niðurstöðum ferðarinnar og hófu að semja bók um förina. Kom sú vinna einkum niður á Eggerti þar sem Bjarni sneri sér í auknum mæli að læknisfræðinni, en hann var skipaður fyrsti landlæknir á Íslandi árið 1760. Eggert hélt áfram að skrifa um ferð þeirra félaga, og árið 1760 fékk hann leyfi til að vinna að verkinu á Íslandi, en þá hafði hann verið heilsuveill um tíma og var talið að dvöl í heimahögum myndi gera honum gott. Dvaldi hann hjá séra Birni Halldórssyni mági sínum í Sauðlauksdal. Varð þessi heimför nokkuð lengri en áætlað hafði verið og Eggert sneri ekki aftur til Danmerkur fyrr en fjórum árum seinna (1764). Var þá mönnum farið að lengja eftir að hann lyki við verkið. Vann Eggert sleitulaust að því að klára verkið næstu tvö árin og skilaði svo loks af sér árið 1766. Var ritið svo gefið út á árunum 1772-74 og taldi þá um 1100 bls. í tveimur bindum. Var hér um tímamótaverk að ræða þegar hún kom út bæði fyrir fræðimenn og það hve hún leiðrétti hugmyndir erlendra manna um land og þjóð almennt. Hefur hún enn í dag mikið gildi sem heimildarrit um hag og háttu landsmanna á þessum tíma. Vorið 1766 er hann hafði lokið við bókina hélt hann aftur til Íslands og settist að hjá mági sínum í Sauðlauksdal. Ári síðar var hann svo skipaður varalögmaður sunnan og austan, án þess að hafa sótt um það. Var hann þó ekki með neitt embættispróf í lögum en skyldi þess í stað sýna kunnáttu sína með ritgerð. Eggert ákvað nú að setjast að á eignarjörð sinni að Hofstöðum í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi og hóf miklar framkvæmdir á húsakynnum. Það haust gekk hann að eiga frændkonu sína Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Bjuggu þau veturinn 1767-68 í Sauðlauksdal meðan verið var að ljúka við allan aðbúnað á Hofstöðum. 30. maí flytja þau svo búferlum og sigla frá Skor austur yfir Breiðafjörð. Var öllu komið fyrir á tveimur skipum. Skall þá á óveður mikið með miklu hafróti er þau voru skammt á veg komin. Sneri annað skipið við, en Eggert sem stýrði hinu skipinu hélt áfram og hvarf í særokið. Hefur ekkert spurst til hans síðan. Var Eggert mörgum mikill harmdauði, ekki bara þeim er stóðu honum næst, heldur einnig þeim mörgu sem höfðu lagt traust sitt á hann að stýra viðreisn þjóðarinnar á leið til bættrar afkomu. Eldmóður hans var þvílíkur og þá var hann með metnað og menntun sem hentaði vel þegar menn sáu fyrir sér að rífa þyrfti upp atvinnuvegi og annað. Segja má að öld upplýsingar hafi haldið innreið sína með þeim Eggerti, Bjarna Pálssyni og Skúla Magnússyni. Eggert orti töluvert um æfina þó svo að hann teljist ekki til stórskálda. Fjölnismenn hömpuðu honum töluvert og hafði hann t.a.m. mikil áhrif á þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Eggert var þó á engan hátt jafn mikið skáld og hann var fræðimaður og baráttumaður, og voru kvæði hans flest því marki brennd að einblína um of á að koma skoðunum hans og baráttu á framfæri, frekar en að leggja áherslu á fagurfræði og ljóðrænu. En þrátt fyrir að kvæði hans verði seint talinn haglega eða vel ort fá þau mikinn kraft úr eldmóðinum sem á stundum hrífur lesandann svo með sér að hann gleymir öllu öðru. Eggert hafði mjög sterkar skoðanir á skáldskap og virðist einkum hafa séð hann með augum nytsemdamanns, þ.e. að nota skáldskapinn til að koma skoðunum sínum á framfæri. Um skáldskap ritaði Eggert: ,,Skáldskaparkúnstin er ei annað en sú efsta trappa mælskukúnstarinnar, og tilgangur og nytsemi skálda og mælindismanna á að vera allur hinn sami, sem sé: að hræra mannleg hjörtu og draga þau til sannmælis sér.” Kvæði Eggerts eru gjarnan ort undir lögum enda mikill áhugamaður um sönglist. Sótti hann eins og upplýsingamenn gjarnan aftur til fortíðarinnar en hann orti jöfnum höndum með fornum háttum, rímnaháttum og kvæðaháttum. Notaði hann oft myndir, líkingar og kenningar úr klassískri goðafræði. Þekktasta kvæði Eggerts og margan hátt dæmigert fyrir hann er kvæðið Búnaðarbálkur, en hann var fyrst prentaður í Hrappsey árið 1783. Þar lýsir hann íslenskum fyrirmyndarbónda sem er sparsamur, sívinnandi og trúir á paradís íslenskrar náttúru og yrkir til samanburðar um andstæðu hans, þ.e. annan bónda sem er latur, ráðlaus og hjátrúarfullur. Synsemistrú náttúruspekinnar svífur yfir vötnum og upplýsingin er í algleymingi.